Árs- og sjálfbærnisskýrsla

Starfsemi Brims árið 2022

Starfsemi Brims árið 2022

Árið 2022 í hnotskurn

Brim er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi en velta félagsins á árinu 2022 var 451 milljón evra. Fjöldi stöðugilda Brims og dótturfélaga var 713 að meðaltali og fækkaði þeim um 49 frá árinu áður en störfin spanna alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Brim er með starfsstöðvar í Reykjavík, Vopnafirði, Akranesi og Hafnarfirði og eru aðalskrifstofur félagsins við Norðurgarð í Reykjavík. Á árinu voru að meðaltali níu fiskiskip í rekstri. Félagið er skráð á aðalmarkaði kauphallar, NASDAQ OMX Ísland, hluthafar voru 1.856 í lok árs 2022 og hefur þeim fjölgað um 610 milli ára.

 • Brim keypti jörðina Torfastaði við Vopnafjörð og hefur hafið undirbúning skógræktar til kolefnisbindingar þar. Gert er ráð fyrir að gróðursetning hefjist á árinu 2023, en jörðin er um 900 hektarar að stærð. Auk kolefnisbindingar er í gangi samtal við Vopnafjarðarhrepp um að hluti skógræktarsvæðisins geti nýst sem útivistarsvæði fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins en Torfastaðir eru nærri kjarna byggðarinnar í hreppnum.
 • Breið þróunarfélag, sem er í eigu Brims og Akraneskaupstaðar, efndi til alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um skipulag Breiðarinnar á Akranesi, með þróun íbúðabyggðar, atvinnuuppbyggingu og aukna nýsköpun að markmiði.
 • Brim, auk fyrirtækjanna Kerecis og Sidewind, voru tilnefnd til Sviföldunnar, hvatningarverðlauna Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM sem veitt voru við setningu Sjávarútvegsráðstefnunnar í nóvember.
 • Brim, ásamt fleiri fjárfestum tók þátt í að stofna hlutafélagið Stika umhverfislausnir sem mun vinna að þróun hugbúnaðarlausna fyrir umhverfisútreikninga fyrirtækja. Lausnir félagsins byggja á umhverfisstjórnunarkerfi Brims, sem þróað hefur verið síðustu ár.
 • Brim lauk við útgáfu skuldabréfa fyrir fimm milljarða króna í samstarfi við Íslandsbanka og voru þau tekin til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq Iceland í maí. Skuldabréfin eru þau fyrstu sinnar tegundar hérlendis sem falla undir bæði bláan og grænan fjármögnunarramma. Með útgáfu skuldabréfanna fjármagnar Brim verkefni sem stuðla að sjálfbærni, en félagið hefur á undanförnum árum fjárfest markvisst í slíkum verkefnum með það að markmiði að draga úr áhrifum starfsemi sinnar á umhverfið.
 • Brim, Sjómannadagsráð og Faxaflóahafnir stóðu fyrir veglegum hátíðahöldum á sjómannadaginn eftir tveggja ára hlé vegna Covid 19.
 • Brim tók þátt í tendrun Hamborgartrésins á aðventunni ásamt Faxaflóahöfnum, Landsbankanum og Reginn. Tréð var á Miðbakkanum í Reykjavíkurhöfn.
 • Sjávarútvegsskóli unga fólksins var starfræktur í Reykjavík í þriðja sinn sumarið 2022. Hann er sumarskóli fyrir 14-16 ára grunnskólanemendur og í samstarfi við vinnuskóla Reykjavíkur, vinnuskóla Kópavogs og vinnuskóla Seltjarnarness, fyrirtæki í sjávarútvegi og Háskólann á Akureyri.
 • Brim afhenti fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga hlutabréf í Brimi til eignar í samræmi við starfsaldur hjá félaginu. Um er að ræða 4,4 milljónir hluta.
 • Frystitogarinn Sólborg RE-27 var keyptur með aflahlutdeild í loðnu, makríl, gulllaxi og hlutdeild í þorskveiðikvóta Íslendinga í Barentshafi. Kaupverð var 7 milljónir evra.
 • Brim gerði samkomulag um kaup á hlutabréfum í danska félaginu Polar Seafood Denmark A/S (PSD). Heildarkaupverðið sem Brim greiðir er 625 mDKK. Að öllum fyrirvörum uppfylltum mun Brim eignast 50% hlutafjár í félaginu. Tilgangurinn er að styrkja sölunet Brims á sjávarfangi.
 • Í 13 ár hefur Creditinfo unnið greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitt fyrirtækjum viðurkenningu sem Framúrskarandi fyrirtæki. Brim hefur verið á listanum frá árinu 2010 og var árið 2022 í 6. sæti hans.
 • Starfsemi félagsins var þróuð með ýmsum hætti á árinu, meðal annars með ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra nýsköpunar og loftslagsmála, verkefnastjóra fræðslu og heilbrigðis og fagstjóra fiskimála.

Stjórn og stjórnarhættir

Stjórn Brims skipa fimm manns sem eru kjörin á aðalfundi félagsins ár hvert.

Stjórn Brims frá aðalfundi 2022:

 • Kristján Þ. Davíðsson, formaður
 • Anna G. Sverrisdóttir, varaformaður
 • Hjálmar Kristjánsson
 • Kristrún Heimisdóttir
 • Magnús Gústafsson

Nánari upplýsingar um stjórnina er að finna á vef félagsins, en þar er einnig að finna samþykktir félagsins, starfsreglur stjórnar, stjórnarháttayfirlýsingu, starfskjarastefnu og aðrar stefnur félagsins.

Stjórn og stjórnarhættir

Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn Brims árið 2022 var skipuð eftirfarandi:

Guðmundur Kristjánsson

Forstjóri

Inga Jóna Friðgeirsdóttir

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs

Ægir Páll Friðbertsson

Framkvæmdastjóri

Sveinn Margeirsson

Framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála

Stjórn og stjórnarhættir

Hluthafar

Skráð hlutafé Brims hf. var 1.956,0 milljónir króna í árslok 2022. Félagið átti í árslok eigin hluti að nafnverði 30,5 milljónir króna. Útistandandi hlutafé nam 1.925,5 milljónum króna. Hluthafar í upphafi árs voru 1.246 en voru 1.856 í árslok. Í árslok 2022 áttu fjórir hluthafar yfir 10% eignarhlut í félaginu en þeir voru Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. sem átti 34,45%, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild sem átti 14,95%, Lífeyrissjóður verslunarmanna sem átti 10,99% og RE-13 ehf. sem átti 10,21%.

Gengi hlutabréfa var 90,5 í árslok 2022 en 78,0 í ársbyrjun. Raunávöxtun hlutabréfa á árinu, að meðtöldum arði í félaginu, reyndist vera jákvæð um 8,72%. Þá er miðað við bréf sem keypt var á lokagengi ársins 2021 og selt í lok ársins 2022, að teknu tilliti til greiðslu arðs og verðbólgu á árinu. Sé litið til lengri tíma var raunávöxtun hlutabréfs, sem var keypt í lok árs 2002 og selt um síðustu áramót, 11,62% á ári að meðaltali.

Skráð viðskipti með hlutabréf í Brimi hf. námu 25.840 milljónum króna árið 2022. Skráð viðskipti árið 2022 námu 17.939 milljónum króna. Nafnlækkun úrvalsvísitölu OMX Iceland var 26,50% árið 2022 og 24,41% að teknu tilliti til arðgreiðslna.

EigandiEignahluturHlutfall
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf.
663.370.977
33,92%
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild
287.905.000
14,72%
Lífeyrssjóður verslunarmanna
211.680.503
10,82%
RE-13 ehf.
196.500.000
10,05%
KG Fiskverkun ehf.
78.024.576
3,99%
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins B-deild
67.595.000
3,46%
Birta lífeyrissjóður
50.240.479
2,57%
Stekkjarsalir ehf.
36.500.000
1.87%
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda
31.019.188
1,56%
Brim hf.
30.532.917
1,56%

Stjórn og stjórnarhættir

Samstæðan

Stefna Brims er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu, sölu- og markaðsstarfsemi auk þess að styðja við nýsköpun tengda sjávarútvegi. Dóttur- og hlutdeildarfélög Brims, innanlands og utan, eru mikilvægir hlekkir í starfsemi félagsins og styðja við stefnu þess.

Dótturfélög

Vignir G. Jónsson ehf.

Vignir G. Jónsson ehf.

Vignir G. Jónsson ehf. sérhæfir sig í fullvinnslu á hrognum og er einn stærsti einstaki kaupandi grásleppu- og þorskhrogna á landinu.

Rekstrartekjur á árinu voru 15,6 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 2,3 m€. Heildareignir í árslok námu 20,2 m€ en eigið fé var 14,0 m€ eða 69%.

Brim á 100% eignarhlut í Vigni G. Jónssyni ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 19,8 m€ í árslok 2022.

Fiskvinnslan Kambur ehf.

Fiskvinnslan Kambur ehf.

Fiskvinnslan Kambur ehf. rekur fiskvinnslu í Hafnarfirði. Dótturfélög félagsins eru Grunnur ehf. og Stapavík hf.

Rekstrartekjur á árinu voru 21,9 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 0,7 m€. Heildareignir í árslok námu 27,0 m€ en eigið fé var 5,0 m€ eða 19%.

Brim á 100% eignarhlut í Fiskvinnslunni Kambi ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 18,3 m€.

Seafood Services ehf.

Seafood Services ehf.

Seafood Services ehf. er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í ýmiss konar þjónustu við sjávarútveginn.

Rekstrartekjur á árinu voru 4,6 m€. Hagnaður var af rekstrinum að fjárhæð 0,2 m€. Heildareignir í árslok námu 1,7 m€ en eigið fé var 1,2 m€ eða 73%.

Brim á 100% eignarhlut í Seafood Services ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 1,9 m€.

Gjörvi ehf.

Gjörvi ehf.

Gjörvi ehf. sérhæfir sig í alhliða viðhaldsþjónustu til skipa og véla- og smíðavinnu, ásamt tengdri þjónustu, bæði til innlendra og erlendra aðila.

Rekstrartekjur á árinu voru 1,4 m€. Tap af rekstrinum nam 0,1 m€. Heildareignir í árslok námu 0,2 m€ en eigið fé var neikvætt um 0,4 m€.

Brim á 100% eignarhlut í Gjörva ehf. og var bókfært verð eignarhlutarins neikvætt um 0,3 m€.

Sölufélög í Asíu

Sölufélög í Asíu

Brim á allt hlutafé í þremur sölufélögum í Asíu: Icelandic Japan KK, Icelandic China Trading Co. Ltd. og Icelandic Hong Kong Ltd.

Samanlagðar rekstrartekjur félaganna á árinu námu 163,8 m€. Hagnaður af rekstrinum nam 4,1 m€. Heildareignir í árslok námu 47,6 m€ en eigið fé var 19,9 m€.

Brim á 100% eignarhlut í félögunum og nam bókfært verð eignarhlutanna 33,1 m€.

Sólborg ehf.

Sólborg ehf.

Brim eignaðist á árinu allt hlutafé í Sólborgu ehf. sem á frystitogarann Sólborgu RE-27.

Á tímabilinu varð tap af rekstrinum að fjárhæð 0,9 m€. Heildareignir í árslok námu 88,7 m€ en eigið fé var 6,2 m€ eða 7%.

Brim á 100% eignarhlut í Sólborgu ehf. og nam bókfært verð eignarhlutarins 6,2 m€.

Grandi Limitada

Grandi Limitada

Grandi Limitada er eignarhaldsfélag í Chile sem er eigandi 20% eignahlutar í Deris S.A.

Hlutdeildarfélög

Breið þróunarfélag

Breið þróunarfélag

Brim á 50% í Breið þróunarfélagi á móti Akraneskaupstað. Þróunarfélagið hefur að markmiði að stuðla að uppbyggingu á Breiðinni á Akranesi, með áherslu á uppbyggingu íbúðahúsnæðis, aukin atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu.

Embla Green Solutions ehf.

Embla Green Solutions ehf.

Brim á 50% hlut í Embla Green Solutions ehf. sem hefur sérhæft sig í gerð hugbúnaðarlausna fyrir umhverfisstjórnun í rauntíma ásamt vigtarlausnum fyrir úrgang. Lausnir félagsins eru hannaðar í samstarfi við Brim og er um að ræða samþætta tækni sem auðveldar fyrirtækjum og sveitarfélögum mat á umhverfisáhrifum úrgangs og úrgangsstjórnun.

Guðrún Þorkelsdóttir ehf.

Guðrún Þorkelsdóttir ehf.

Brim á 50% hlut í útgerðarfyrirtækinu Guðrún Þorkelsdóttir ehf. Félagið gerir út uppsjávarskipið Guðrúnu Þorkelsdóttur SU.

Áhrif á rekstur Brims voru jákvæð um 0,02 m€. Bókfært verð eignarhlutarins var 0,02 m€.

Melnes ehf.

Melnes ehf.

Brim á 43% hlut í Melnesi ehf. sem er útgerðarfélag á Rifi sem gerir meðal annars út krókabátinn Særif SH-25.

Áhrif félagsins á rekstur Brims voru jákvæð um 0,3 m€ Bókfært verð eignar Brims var 6,7 m€ í árslok 2022.

Þórsberg ehf.

Þórsberg ehf.

Brim á 41% hlut í Þórsbergi ehf. sem er útgerðarfélag á Tálknafirði sem gerir meðal annars út krókabátinn Indriða Kristins BA.

Áhrif félagsins á rekstur Brims voru jákvæð um 0,3 m€. Bókfært verð eignar Brims var 8,7 m€ í árslok 2022.

Stika-umhverfislausnir ehf.

Stika-umhverfislausnir ehf.

Brim á 57% hlut í Stika-umhverfislausnir ehf. sem þróar hugbúnað fyrir umhverfisbókhald fyrirtækja.

Laugafiskur ehf.

Laugafiskur ehf.

Laugafiskur ehf. rekur fiskþurrkun á Reykjanesi og selur afurðir sínar til erlendra viðskiptavina. Brim á 33,3% eignarhlut í félaginu á móti Skinney-Þinganes hf. og Nesfiski ehf.

Áhrif félagsins á rekstur Brims voru jákvæð um 0,7 m€. Bókfært verð eignar Brims var 4,6 m€ í árslok 2022.

Icelandic Pelagic ehf.

Icelandic Pelagic ehf.

Brim á 33% eignarhlut í Iceland Pelagic ehf. Félagið sérhæfir sig í sölu og dreifingu frystra sjávarafurða. Aðrir hluthafar eru Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Skinney-Þinganes hf.

Áhrif félagsins á rekstur Brims voru jákvæð um 0,4 m€. Bókfært verð eignar Brims var 2,7 m€ í árslok 2022.

Marine Collagen ehf.

Marine Collagen ehf.

Brim á hlut í Marine Collagen þar sem stefnt er að framleiðslu á gelatíni og kollageni úr 4.000 tonnum af roði úr íslenskum botnfiski á ári.

Áhrif félagsins á rekstur Brims voru neikvæð um 0,1 m€. Bókfært verð eignar Brims var 0,7 m€ í árslok 2022. Aðrir hluthafar eru Samherji hf., Vísir hf. og Þorbjörn hf., hver með 25% eignarhlut í félaginu.

Deris S.A.

Deris S.A.

Brim á 20% hlut í eignarhaldsfélaginu Deris S.A. í Síle. Deris á sjávarútvegsfélögin Friosur og Pesca Chile. Félögin gera út tvo frystitogara, tvö línuskip sem frysta aflann, þrjá ísfisktogara og eitt skip til ljósátuveiða. Auk þess rekur það eitt fiskiðjuver.

Hagnaður af rekstri Deris árið 2022 var 0,4 m€. Áhrif félagsins á rekstur Brims voru jákvæð um 0,6 m€. Bókfært verð eignar Brims var 26,5 m€ í árslok 2022.

Stjórn og stjórnarhættir

Viðskipti tengdra aðila

Starfsemi Brims fellur undir reglugerð um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila. Reglunum er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum tengdra lögaðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þannig að verðlagning sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu. Reglurnar eiga eingöngu við þegar tiltekin tengsl eru á milli lögaðila sem eiga í viðskiptum.

Tengsl eru fyrir hendi þegar bein og/eða óbein tengsl er á milli lögaðilanna sjálfra eða þegar tengsl er á milli manna sem eru meirihlutaeigendur lögaðilanna eða fara með stjórnunarleg yfirráð yfir þeim lögaðilum sem eiga í viðskiptum. Skilgreina má tengsl milli lögaðilanna sjálfra með beinum eða óbeinum hætti á eftirfarandi hátt:

 • Þegar lögaðilar eru hluti af sömu samstæðunni eru þeir ótvírætt tengdir lögaðilar.
 • Þegar lögaðili er undir beinu og/eða óbeinu meirihluta eignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu telst hann tengdur öllum lögaðilum innan samstæðunnar.
 • Þegar lögaðili á meira en 50% í öðrum lögaðila með óbeinum hætti teljast þeir tengdir í skilningi ákvæðis laganna um milliverðlagningu. Ef annar lögaðilinn er hluti af samstæðu telst hinn lögaðilinn tengdur öllum öðrum lögaðilum innan samstæðunnar.

Brim seldi eftirfarandi tengdum aðilum vörur á árinu 2022

 • Icelandic Japan, sala á afurðum 29,6 milljónir evra.
 • Vignir G. Jónsson, sala á hrognum 9,6 milljónir evra.
 • Fiskvinnslan Kambur, sala á botnfiski til vinnslu 1,7 milljónir evra.
 • Iceland Pelagic, sala á sjávarafurðum 33,5 milljón evra.
 • Laugafiskur, sala á hausum 1,6 milljón evra.

Brim keypti einnig vörur af tengdum aðilum á árinu 2022

 • Fiskvinnslan Kambur, kaup á afurðum 2,2 milljón evra.
 • Gjörvi skipaþjónusta 1,4 milljón evra.
 • Seafood Services, 0,2 milljón evra.
 • Brim keypti félagið Sólborgu ehf. af Útgerðarfélagi Reykjavíkur ehf., kaupverðið var 7,0 millj. evra.

Önnur viðskipti Brims við tengda aðila eru óveruleg.

Önnur viðskipti milli tengdra aðila:

 • Útgerðarfélag Reykjavíkur og dótturfélag seldi Icelandic Japan afurðir fyrir 36,0 milljónir evra.
 • Seafood Services sem annast gæðaeftirlit á afurðum seldi Icelandic Japan þjónustu fyrir 0,8 milljónir evra og Icelandic China fyrir 2,8 milljónir evra.
 • Fiskvinnslan Kambur seldi Laugafiski hausa fyrir 0,7 milljónir evra.
 • Icelandic Japan seldi Icelandic China afurðir fyrir 0,5 milljónir evra.
 • Icelandic Hong Kong seldi Icelandic China afurðir fyrir 2,8 milljónir evra.

Önnur viðskipti milli tengdra aðila eru óveruleg.

Félagslegir þættir

Mannauður

Stöðugildi hjá Brimi og dótturfélögum voru 713 árið 2022 og var starfsmannaveltan 4,96% hjá fastráðnu starfsfólki fyrir árið 2022. Starfsfólk Brims kemur frá yfir 26 löndum. Styrkur félagsins felst í öflugu starfsfólki til sjós og lands og ákvað stjórn Brims að afhenda fastráðnu starfsfólki félagsins og dótturfélaga hluti í Brimi í samræmi við starfsaldur. Með því var verið að þakka starfsfólki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og þá sérstaklega fyrir síðustu tvö ár í heimsfaraldri Covid og þeim einstöku áskorunum sem félagið stóð fyrir. Á slíkum tímum verður seint undirstrikað mikilvægi starfsfólks í velferð og árangri félagsins til framtíðar. Starfsfólkið á stóran þátt í velgengni félagsins og Brim leggur áherslu á að hjá félaginu starfi starfsfólk með framúrskarandi hæfni og félagið fjárfestir markvisst í fræðslu og þjálfun starfsfólks.

Fjöldi kvenna sem starfa hjá félaginu eykst um 4% milli áranna 2021 og 2022 og er 29% konur og 71% karlar. Hægt gengur að fjölga konum meðal sjómanna og iðnaðarmanna.

Félagsleg úttekt var gerð á fiskiðjuverinu í Norðurgarði á árinu 2022. Um var að ræða svokallaða SMETA úttekt, (Sedex Members Ethical Trade Audit) sem er úttekt óháðs þriðja aðila, sem tekur á vinnuumhverfi starfsmanna og hvernig staðið er að vernd grunndvallarréttinda þeirra. Þannig snýr úttektin að fyrirkomulagi starfsmannamála, vinnuvernd, starfsumhverfi og viðskiptasiðferði samkvæmt stöðlum SEDEX. Niðurstaða úttektarinnar var ágætiseinkun.

Brim tekur ásamt öðrum íslenskum útgerðum þátt í tilraunaverkefni FISH Standard for Crew sem Ábyrgar fiskveiðar ses. heldur utan um í umboði Samtaka fyrirtæka í sjávarútvegi og Landssambands smábátaeigenda. Staðall FISH byggir á Fiskimannasamþykkt ILO 188, sem er eini alþjóðasamningurinn sem tekur til vinnuaðstæðna fiskimanna á heimsvísu. Verkefnið snýr að framkvæmd félagslegrar úttektar á vinnuaðstæðum fiskimanna á fiskiskipum byggðum á staðli FISH Standard for Crew, en áætlað er að niðurstöður forúttektar liggi fyrir á árinu 2023.

Félagslegir þættir

Fræðsla

Brim leggur áherslu á að veita hagnýta þjálfun sem eflir starfsfólk og eykur persónulega færni og þekkingu. Brimskólinn var settur af stað haustið 2022 og er ætlað að vera kjarni starfsþróunar og um leið verkfæri starfsfólks til að leita þekkingar með skipulögðum hætti. Fyrstu skref skólans voru tekin í samstarfi við Fisktækniskólann en undirritaður var samstarfssamningur milli Brims og Fisktækniskólans í nóvember 2022. Markmið samstarfsins er efling menntunar ungs fólks og hvers kyns símenntunar og þjálfunar starfsfólks í sjávarútvegi á Íslandi. Unnið er út frá fjölbreyttum kennsluaðferðum og boðið upp á staðbundna sem og rafræna þjálfun. Tekið var í notkun íslenskt rafrænt fræðslukerfi sem ber nafnið LearnCove og býður upp á miðlægt aðgengi þjálfunarefnis, samvinnuvettvang, aðlögun að fjölbreyttum þörfum, starfa- og hlutverkamiðaða þjálfun og fjölmenningarlegan stuðning við nám.

Félagið leggur mikla áherslu á íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk en Mímir símenntun og Brim hafa lengi átt í samstarfi um íslenskukennslu. Lögð er áhersla á góða þjálfun starfsfólks í íslensku til að auðvelda samskipti á vinnustaðnum og virkja þátttöku þess í samfélaginu.

Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk er 48 klst. námskeið sem er haldið annað hvert ár. Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu starfsfólks á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust og styrkja faglega hæfni þeirra sem sækja námskeiðið.

Endurmenntun varðandi öryggismál er mikilvægur þáttur í starfsemi Brims enda nauðsynlegt að geta brugðist rétt við á neyðarstundu. Sú endurmenntun felur meðal annars í sér að sjómenn sækja námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna þar sem kennt á þann björgunar- og öryggisbúnað sem er um borð í skipum.

Fjöldi fræðslustunda árið 2022 var 722 og fjöldi starfsfólks sem sótti fræðslu var 387.

Fjöldi fræðslustunda

Fjöldi starfsmanna Fræðslustundir
Námskeið
2022
2021
2022
2021
Slysavarnaskóli sjómanna
86
51
516
378
Öryggismál
16
29
16
11
Fiskvinnslunámskeið
10
48
Nýliðanámskeið
22
35
2,5
6
Íslenska
59
47
67
32
Gæðamál
146
11
57
234
Tækni
20
18
6
121
Ýmislegt - persónuleg færni
28
148
9,5
25
Samtals
387
339
722
807
Heilsa og heilbrigðir lífshættir

Heilsa og heilbrigðir lífshættir

Brim hvetur starfsfólk til að stunda heilbrigða lífshætti. Starfsfólk er hvatt til að nýta sér vistvænan samgöngumáta og býðst samgöngustyrkur eða árskort í strætó, auk þess sem rafhleðslustöðvar eru við skrifstofur félagsins. Íþróttastyrkur er veittur þeim sem stunda reglulega líkamsrækt og er starfsfólk hvatt til að taka þátt í landsátökum eins og Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna.

Boðið er upp á hollan og góðan mat á hóflegu verði á starfsstöðvum félagsins. Auk þess hafa læknir og hjúkrunarfræðingur viðveru, aðra hvora viku, í Norðurgarði og starfsfólki stendur til boða árleg heilsufarsskoðun, ráðgjöf og inflúensusprauta.

Heilsudagar Brims í Reykjavík og á Vopnafirði voru haldnir haustið 2022. Í boði var fjölbreytt dagskrá sem tók á þáttum eins og hreyfingu, mataræði, líkamsbeitingu og heilsufarsástandi.

Félagsstarf starfsfólks

Félagsstarf starfsfólks

Brim stendur árlega fyrir ýmsum viðburðum fyrir starfsfólk félagsins og dótturfélaga, auk viðburða sem starfsmannafélög félaganna standa fyrir. Félagsstarf lá niðri í byrjun árs 2022 vegna Covid 19 en fór af stað í byrjun sumars.

Hefð er fyrir því að árshátíð félagsins sé haldin um sjómannadagshelgina, enda eru öll skip í landi þá helgi. Árshátíð félagsins var að þessu sinni í Hvalasafninu og mikið lagt upp með að gera hana sem glæsilegasta, enda hafði árshátíðin fallið niður vegna Covid 19 árin á undan.

Fjölskyldur starfsfólks mæta árlega í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn til að skemmta sér saman. Þá hélt Brim Texas Scramble golfmót fyrir starfsfólk, á Seltjarnarnesvelli í byrjun sumars. Á mótið mættu bæði þrautþjálfaðir einstaklingar sem og byrjendur í golfi og áttu í bland góð og slæm högg.

Brimgarður, starfsmannafélag Brims í Reykjavík stóð fyrir glöðum degi í mars og bauð félagmönnum í minigolf sem mæltist vel fyrir. Félagið skipulagði ferð til Sitges á Spáni í október og starfsmannafélagið á Vopnafirði til Costa del Sol á árinu. Í desember stóðu Brim og Brimgarður fyrir glæsilegu jólahlaðborði með tónleika ívafi í Gamla Bíó. Árinu lauk með jólaballi.

.

Félagslegir þættir

Öryggismál

Brim lætur sig slysavarnir miklu varða, bæði með fræðslu og forvörnum innan félagsins og einnig með stuðningi við öflugt slysavarna- og björgunarstarf til sjós og lands. Skipulag öryggismála miðar að því að auka vægi málaflokksins innan félagsins og efla skilvirkni hans. Stjórnendur bera ábyrgð á öryggismálum.

Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð á eigin öryggi. Ein af grunnforsendum þess að fækka slysum er að allir axli ábyrgð og stjórnendur jafnt sem starfsfólk einsetji sér að vinna að bættu öryggi. Stjórnendur bera ábyrgð á því að búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnusvæðum og starfsstöðvum sem þeir hafa umsjón með. Félagið treystir því að stjórnendur sýni jafnan gott fordæmi og leiði vinnuverndarstarf félagsins.

Árlega eru haldnir öryggisdagar sem haldnir hafa verið um haust en að þessu sinni var ákveðið að breyta tímasetningu og því var öryggisdagur 2022 haldinn 5. janúar 2023.

Eitt alvarlegt slys varð á árinu þegar skipverji kastaðist frá borði meðan á veiðum stóð. Áhöfnin náði með snarræði að bjarga skipverjanum og má það þakka góðri þjálfun áhafnarinnar, markvissum viðbrögðum og samvinnu. Atvikið var lærdómsríkt og varpar ljósi á mikilvægi reglubundinnar þjálfunar.

Félagslegir þættir

Öryggisnefndir

Öryggisnefndir eru starfandi í Reykjavík, á Vopnafirði, Akranesi og á skipum félagsins og annast mannauðssvið umsjón og eftirlit með málaflokknum. Þetta er í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006.

Brýnt er að starfsfólk fylgi öryggisreglum á vinnustað, taki þátt í öryggisfræðslu og komi með ábendingar um það sem betur má fara í öryggismálum.

Félagslegir þættir

Slys

Brim leggur áherslu á að öll slys séu skráð og eru verkferlar þess efnis kynnt starfsfólki. Fjarveru- og umönnunarslys starfsfólks í landi eru tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags. Fjarveruslys starfsfólks á sjó eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands, Rannsóknarnefndar sjóslysa og tryggingafélags.

Slys eru flokkuð í eftirfarandi flokka:

 • Fjarveruslys eru slys sem valda fjarvistum frá vinnu (vinnuslys), þ.e. sem nemur slysadegi + næsta degi eða enn lengra tímabili. 
 • Umönnunarslys eru slys þar sem hinn slasaði þarf að leita sér aðstoðar á heilsugæslu en mætir engu að síður til vinnu daginn eftir. 
 • Skyndihjálparslys eru minniháttar slys eða slys sem krefjast þess að notaður sé skyndihjálparbúnaður (smáskurðir o.þ.h.). Viðkomandi tekur sér ekki frí frá vinnu. 
 • Frítímaslys eru slys sem verða í frítíma starfsfólks eða á leið til eða frá vinnu. 

Samtals voru tilkynnt 25 slys á árinu sem eru 10 færri en árið áður en þá voru þau 35 talsins. Á árinu voru 13 slys á sjó og 12 slys í landi. Brim hefur stuðst við eigið slysaskráningarkerfi frá árinu 2017 en hóf í lok árs 2022 innleiðingu á slysaskráningarkerfinu Atviki. Nýtt kerfi á að auðvelda skráningu slysa, ábendinga, næstum slysa og ógnana. Markmiðið er að byggja upp enn betri öryggismenningu og hvetja starfsfólk til að taka virkan þátt í mótun vinnuumhverfis þar sem allir finna til öryggis.

Veiðar og vinnsla

Veiðar, vinnsla og sala afurða gengu almennt vel á árinu. Frystitogarinn Sólborg RE-27 var keyptur til félagsins, með 5,84% aflahlutdeild í loðnu, 3,39% í makríl, 11,42% í gulllaxi og 16,86% af þorskveiðikvóta Íslendinga í Barentshafi. Skipið var ekki gert út á árinu.

Í lok árs voru eftirtalin skip í rekstri hjá Brimi, Kambi og Guðrúnu Þorkelsdóttur.

Frystitogarar

Frystitogarar

 • Vigri RE
 • Örfirisey RE
Ísfisktogarar

Ísfisktogarar

 • Akurey AK
 • Helga María AK
 • Viðey RE
Uppsjávarskip

Uppsjávarskip

 • Venus NS
 • Víkingur AK
 • Svanur RE
 • Guðrún Þorkelsdóttir SU
Krókabátur

Krókabátur

 • Kristján HF

Veiðar og vinnsla

Botnfisksvið

Umtalsverður niðurskurður var á botnfiskheimildum Brims kvótaárið 2022/2023 eða um 6% í þorski, 20% í gullkarfa og 20% í djúpkarfa. Á móti var aukning í ýsu 23%. Ekki var úthlutað aflamarki á grundvelli veiðiréttar í Barentshafinu sem skilgreint er í rússneskri lögsögu fyrir árið 2022 og ekki er útlit fyrir að úthlutað verði fyrir árið 2023. Brim á hlutdeild þar og hefði fengið úthlutað 919 tonnum fyrir árið 2022 og 1.180 tonn fyrir árið 2023.

Heildar botnfiskveiði dróst því verulega saman á milli ára og var 42.966 tonn á móti 51.286 tonnum árið 2021. Þar af var afli togara árið 2022 41.226 tonn, en árið 2021 var hann 49.557 tonn. Afli á úthaldsdag var sá sami og 2021 eða 29,5 tonn. Línubáturinn Kristján veiddi 1.740 tonn á árinu, en 1.729 tonn árið 2021.

Þrátt fyrir heimsfaraldur Covid 19 gekk veiði botnfiskskipa vel. Miklar ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir Covid 19 smit á skipum og tókust þær almennt vel. Þó stoppaði Örfirisey í tæpar 3 vikur vegna smits sem kom upp um borð í janúar. Þá fór Vigri í 10 vikna slipp í lok árs, þar sem frystikerfi skipins var uppfært, millidekkið lagfært og skipið málað í litum Brims, ásamt öðrum viðhaldsverkefnum. Öll ísfiskskipin stoppuðu í 10-20 daga útaf ýmsum viðhaldsverkefnum.

Afli til vinnslu í Norðurgarði var 21.444 tonn af þorski, ufsa, ýsu og karfa, sem er aðeins minna en árið áður þar sem unnin voru 22.262 tonn. Mismunur milli ára stafar af samdrætti í útgefnum aflaheimildum í karfa og þorski. Vinnsla gekk vel og eru fjárfestingar í sjálfvirkni, sem farið var í á árunum 2020-2021, komnar í fulla virkni með góðum árangri. Kambur vann 5.185 tonn af þorski og ýsu á árinu á móti 4.925 tonnum á árinu á undan.

Afli og verðmæti botnfiskskipa

20222021
Afli (tonn)
Verðmæti (þús.evra)
Afli (tonn)
Verðmæti (þús.evra)
Ísfisktogarar
24.930
48.628
26.084
40.985
Akurey
7.033
13.776
7.810
12.354
Viðey
8.531
16.347
8.963
14.143
Helga María
7.626
14.297
7.582
11.000
Kristján*
1.740
4.209
1.729
3.487
Frystitogarar
18.037
57.628
25.202
60.255
Örfirisey
9.280
32.084
9.385
23.476
Vigri
8.757
25.593
9.706
23.508
Höfrungur III*
0
0
6.111
13.271
Samtals
42.966
106.256
51.286
101.239

*Höfrungur III, frá janúar - ágúst 2021

Botnfiskafli til vinnslu

2022 2021
Norðurgarður
Kambur
Samtals
Norðurgarður
Kambur
Samtals
Þorskur
10.835
4.128
14.963
11.623
3.883
15.506
Ufsi
6.101
57
6.158
5.274
5.274
Karfi
4.284
4.284
5.365
5.365
Ýsa
224
1.000
1.224
1.042
1.042
21.444
5.185
26.630
22.262
4.925
27.187

Veiðar og vinnsla

Uppsjávarsvið

Heildarafli uppsjávarskipanna Venusar, Víkings og Svans var rúmlega 55 þúsund tonnum meiri árið 2022 en 2021 eða 151 þúsund tonn samanborið við 96 þúsund tonn árið áður. Helsta breytingin milli ára var veruleg aukning í loðnuveiði. Uppsjávarskipið Guðrún Þorkelsdóttir sem Brim á 50% hlut í sinnti veiðum fyrir félagið eftir þörfum, fyrst og fremst í loðnu og kolmunna.

Loðnuveiðar hófust strax í upphafi árs vegna mikilla heimilda og stóðu þær framundir lok marsmánaðar. Áherslan var sem fyrr á að nýta heimildir félagsins til sem mestrar verðmætasköpunar og gekk það vel. Um miðjan febrúar fór umræða um niðurskurð heimilda í kjölfar nýrrar loðnumælingar að verða háværari og ákveðið var að gera hlé á veiðum til að tryggja að fullnægjandi heimildir yrðu til ráðstöfunar í verðmætustu framleiðsluna. Niðurskurður heimilda varð á endanum óverulegur en það hlé sem gert var á veiðunum til viðbótar við afleitt tíðarfar á vertíðinni frá upphafi til enda leiddi til þess að ekki tókst að fullnýta aflaheimildirnar þetta árið. Kolmunnaveiðar tóku svo við í apríl og maí og gengu þær afar vel. Skipin hófu makrílveiðar í júlí og lauk þeim eins og oft áður um miðjan september. Samstarf var milli skipa félagsins við veiðar á makrílnum til að halda siglingum í lágmarki og hámarka gæði afurða og tókst það vel. Í kjölfarið á makrílveiðum tóku við veiðar úr Norsk-íslenska síldarstofninum og lauk þeim í lok október, síldin var alla vertíðina í innan við 10 klst siglingu frá vinnslu félagsins á Vopnafirði og hráefnisgæðin því með besta móti. Töluvert veiddist af íslenskri síld í bland við þá norsk-íslensku og því var lítið eftir af henni til að sækja vestur fyrir land. Í lok ársins fóru Venus og Víkingur sitthvora veiðiferðina að sækja eftirstöðvarnar af íslenska síldarkvótanum og tóku svo hvort um sig fyrsta túrinn af loðnuvertíðinni 2022/2023.

Á Akranesi var tekið á móti loðnu til bræðslu fyrstu þrjá mánuði ársins og unnin loðnuhrogn frá lokum febrúar og út mars mánuð.

Á Vopnafirði stóð uppsjávarfrysting yfir stóran hluta ársins sem og framleiðsla á mjöli og lýsi. Í janúar fór loðnan að mestu til bræðslu vegna óvissu á mörkuðum fyrir frystar loðnuafurðir í A-Evrópu. Ekki dró úr þeirri óvissu með innrás Rússlands í Úkraínu. Í febrúar var loðna fryst fyrir Asíumarkað og loðnuhrogn framleidd í mars. Yfir vormánuðina var tekið á móti grásleppu af smábátum, hún fryst og hrognin söltuð til frekari vinnslu. Í júlí hófst makrílvinnsla og gekk hún vel fram í miðjan september þó nokkuð væri um vinnslustopp þegar veiðar voru tregar. Vinnsla var nánast samfelld frá miðjum september til loka október þegar veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum lauk. Í lok ársins voru síðustu tonnin af íslenskri síld unnin, auk þess sem fryst voru um 1.500 tonn af loðnu fyrir A-Evrópumarkað.

Fryst magn uppsjávarafurða breyttist lítið á milli ára enda voru heimildir í flestum tegundum utan loðnu svipaðar og árið áður. Frysting loðnuafurða takmarkaðist að mestu við loðnuhrogn og vörur fyrir Asíumarkað vegna óvissu á mörkuðum og hækkandi geymslukostnaðar erlendis. Framleiðsla á mjöli og lýsi jókst hinsvegar um 75% á milli ára og munaði þar mestu um afurðir úr loðnu.

Afli og verðmæti uppsjávarskipa

2022 2021
Afli (tonn)
Verðmæti (þús. evra)
Afli (tonn)
Verðmæti (þús. evra)
Venus
58.145
19.646
45.783
15.140
Víkingur
51.959
18.523
43.222
14.836
Svanur
41.048
15.787
6.585
1.878
Samtals
151.151
53.956
95.590
31.854

Frystar uppsjávarafurðir (tonn)

2022 2021
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Loðna fryst
5.048
5.048
3.227
3.227
Loðnuhrogn
1.780
748
2.528
389
1.005
1.394
Síld
8.102
8.102
11.461
11.461
Makríll
8.896
8.896
8.172
8.172
1.780
22.794
24.574
389
23.865
24.254

Móttekinn afli í fiskmjölsverksmiðjum (tonn)

2022 2021
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Akranes
Vopnafjörður
Samtals
Loðna
38.966
42.841
81.807
6.397
19.564
25.961
Síld
3.018
13.898
16.915
13.555
13.555
Makríll
11.362
11.362
8.782
8.782
Kolmunni
39.633
39.633
32.213
32.213
Annað
2.234
76
2.310
3.169
70
3.239
Samtals
44.217
107.811
152.028
9.566
74.183
83.749

Gæðamál

Gæðavottanir

Allar starfsstöðvar Brims, til sjós og lands, eru undir opinberu eftirliti Matvælastofnunar (MAST) sem fylgist með því að farið sé að lögum og reglum. Eftirlit MAST byggist á eftirlitsskoðunum sem fara í sumum tilvikum fram án fyrirvara.

Starfsemi félagsins í fiskiðjuverum í Reykjavík og á Vopnafirði er vottuð samkvæmt IFS-staðlinum (International Food Standard). Þetta er alþjóðlega viðurkenndur staðall og einn mest notaði staðall á sviði matvælaöryggis ásamt ISO og BRC. Þessir megin staðlar matvælaöryggis eru samræmdir undir merkjum Global Food Safety Initiative (GFSI). Starfsemi Kambs, Vignis G. Jónssonar og fiskiðjuvers Brims í Norðurgarði er tekin út af FDA (Food and Drug Administration í Bandaríkjunum). Allar starfsstöðvar hafa rekjanleikavottun MSC (Marine Stewardship Council) og hagnýtir félagið vottun IRF (Iceland Responsible Fisheries) við veiðar félagsins.

Fiskmjölsverksmiðjurnar á Akranesi og Vopnafirði eru vottaðar samkvæmt FEMAS-staðli (Feed Materials Assurance Scheme). FEMAS er alþjóðlegur fóðuröryggisstaðall fyrir afurðir framleiddar í dýrafóður og voru verksmiðjurnar á Akranesi og Vopnafirði báðar teknar út á árinu.

Vottuð gæðakerfi félagsins gera meðal annars ráð fyrir því að meta ánægju viðskiptavina. Verklagið kveður á um að matið skuli ná til viðskiptavina sem standa fyrir að minnsta kosti 80% af veltu. Þetta mat fer fram árlega.

Engar innkallanir voru árið 2022, hvorki vegna merkinga né annarra orsaka og ekki voru skjalfest nein alvarleg frávik frá reglum félagsins varðandi upplýsingagjöf eða merkingar á afurðum félagsins.

Hæsta einkunn í IFS úttekt

Á árinu fór fram úttekt samkvæmt IFS staðlinum bæði á uppsjávafrystingunni á Vopnafirði og botnfiskvinnslunni í fiskiðjuverinu Norðurgarði. Báðar starfsstöðvarnar fengu skoðun í „higher level“, sem er hæsta einkunn sem er gefin.

Gæðamál

Rekjanleiki

Brim veiðir einungis villtan fisk og eru afurðir félagsins í öllum tilvikum hreinar og náttúrulega heilnæmar sjávarafurðir. Rekjanleiki afurða er mikilvægur hluti matvælaframleiðslu og byggir matvæla- og fóðuröryggiskerfi Brims á því að rekja megi vöruna frá uppruna hennar og allt til viðskiptavinar. Við veiðar eru skráðar nákvæmar upplýsingar um afla, svo sem veiðisvæði, veiðarfæri, samsetning afla, magn og fleira. Uppruna hráefnis í vinnslu er haldið til haga og fylgja upplýsingar um uppruna afurðar til kaupanda. Enn fremur er haldið utan um ráðstöfun allra afurða. Þannig eru allar afurðir rekjanlegar frá veiðum til kaupanda. Þessi rekjanleiki er prófaður reglulega í innra eftirliti félagsins og einnig í ytri úttektum á kerfum félagsins, meðal annars í úttektum tengdum upprunavottunum.

Afurðir félagsins eru í öllum tilvikum merktar í samræmi við reglur um merkingar á sjávarfangi. Þannig er ávallt ljóst um hvaða fisktegund og veiðisvæði er að ræða og eins hvaða veiðarfæri voru notuð við veiðar.

Markaðir

Markaðsmál

Sölufélög í eigu Brims sjá að mestu leyti um sölu afurða félagsins en auk þeirra starfa þrír sölustjórar hjá Brimi. Icelandic Japan, Icelandic China og Icelandic Hong Kong, sem eru í eigu Brims, annast sölu á afurðum félagsins í Asíu. Iceland Pelagic, sem er í 33% eigu Brims, sér um sölu og dreifingu á Austur-Evrópumarkað, þar sem frystar uppsjávarafurðir eru fyrirferðarmestar. Sölustjórar Brims selja ferskar og frosnar afurðir á Vestur-Evrópu og Ameríku. Sala á mjöl-og lýsisafurðum er í höndum starfsfólks uppsjávarsviðs Brims.

Sala afurða uppsjávarfisks gekk ágætlega á árinu, þrátt fyrir óvissuástand á helstu mörkuðum frystra uppsjávarafurða í A-Evrópu í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Sala til Úkraínu heldur áfram þó hún sé í minni mæli en áður og aðrir markaðir hafa lítið gefið eftir. Verð á flestum afurðum hafa haldist nokkuð stöðug. Sala á fiskmjöli og lýsi hefur gengið afar vel og eru mjöl- og lýsisverð í sögulegu hámarki. Það má helst rekja til hækkana á hrávörumörkuðum.

Eftirspurn eftir flestum sjófrystum afurðum var umfram framleiðslu frá byrjun árs, fram yfir mitt ár. Þá tók að hægja á sölu og spenna myndaðist á mörkuðum, meðal annars vegna hækkandi orkuverðs og óöryggis í orku- og efnahagsmálum. Verð voru í sögulegu hámarki að segja má í öllum tegundum nema karfa. Sala ferskra afurða gekk vel á árinu og voru verð á þorski og ufsa há allt árið en karfi styrktist einnig þegar leið á. Markaðsaðstæður í landfrystum afurðum hafa breyst þannig að HORECA (Hotel - Restaurant - Catering) markaðir hafa styrkst eftir að samkomutakmörkunum Covid-19 létti. Á móti hefur eftirspurn fyrir smásölumarkað róast. Verð hafa samt sem áður hækkað og sala gengið vel.

Vöruflutningar gengu almennt vel en flutningskostnaður hefur heldur hækkað og þá ekki síst áframflutningur landleiðis í Evrópu.

Nýsköpun

Brim lykilþátttakandi í Nýsköpunarvikunni

Brim var meðal styrktaraðila Nýsköpunarvikunnar árið 2022 og bauð m.a. í heimsókn í vinnslu félagsins í Norðurgarði, í samvinnu við Marel. Vinnslan var endurnýjuð árið 2020 og er hátæknibúnaður frá Marel mikilvægur hluti af henni, m.a. í því augnamiði að auka nýtingu hráefna og sjálfvirkni í vinnslunni.

Í Nýsköpunarvikunni var lögð áhersla á loftslagstengda nýsköpun, en Brim hefur á síðustu árum unnið ýmis verkefni sem auka verðmæti og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hafa þau verkefni verið hluti af umhverfis- og nýsköpunaráætlun félagsins sem ber nafnið "Hrein virðiskeðja sjávarútvegs" og hefur hlotið viðurkenningu Rannís sem þróunarverkefni.

Nýsköpun

Samstarf tengt umhverfis- og loftslagsmálum

Umhverfis- og loftslagsmál eru áberandi í samfélaginu og vinna margir mikilvæg störf á þeim vettvangi, m.a. við gerð aðgerðaáætlana í orkuskiptum og úrgangsmálum. Samstarf fyrirtækja og opinberra aðila er grundvöllur að árangri á þessu sviði og tók Brim þátt í margskonar vinnu sem tengist stefnumörkun umhverfis- og loftslagsmála á árinu 2022. Þar skal fyrst nefnd til sögunnar gerð á vegvísisi fyrir sjávarútveg í loftslagsmálum, sem SFS stendur að. Þá sat framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála í starfshópi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um hlutverk framleiðenda í hringrásarhagkerfi. Einnig hefur starfsfólk Brims veitt upplýsingar um möguleika til orkuskipta í tengslum við aðgerðaáætlun um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 og svo mætti lengi telja.

Nýsköpun

Nemendur í Háskólanum í Reykjavík greina orkumál

Öflugur hópur nemenda í HR vann lokaverkefni sitt í námskeiðinu Sjálfbærni, sem kennt er á þriðja ári í verkfræði í HR. Nemendurnir heita Bergþóra Hlín Sigurðardóttir, Harpa Hlín Ólafsdóttir, Harpa María Friðgeirsdóttir, Karen Hrönn Sævarsdóttir, Kolfinna Mist Rúnarsdóttir og Margrét Þórhildur Maríudóttir. Verkefni þeirra miðaði að því að finna nýjan orkugjafa fyrir skip Brims.

Nýsköpun

Rafrænar skráningar auka yfirsýn

Brim hefur lagt áherslu á rafrænar skráningar ýmissa gagna á undanförnum árum. Sem dæmi má nefna skráningar á úrgangi og afdrifum hans. Sömuleiðis hafa aðföng í auknum mæli verið pöntuð rafrænt og á það t.d. við um eldsneyti og kost fyrir skip. Þá er haldið utan um stærðarflokkun afla með rafrænum hætti. Rafrænar skráningar eru mikilvægar til að yfirsýn sé á hverjum tíma yfir ýmsa þætti starfseminnar og gefa þær jafnframt möguleika til umbótaverkefna af ýmsum toga og upplýsingagjafar innan Brims sem utan. Á komandi misserum er stefnt að því auka enn frekar hlut rafræns utanumhalds í aðfangakeðju og umhverfisbókhaldi Brims.

Úrvinnsla rafrænna skráninga er með ýmsum hætti, t.d. á formi samantekta og skýrslna sem aðgengilegar eru fyrir starfsfólk og eru í sumum tilvikum birtar á snjallskjáum og í smáforritum (öppum). Þá hefur Brim átt í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Fiskistofu, Matvælaráðuneytið og ráðgjafafyrirtækið Intellecta um nýtingu gagna félagsins til umbóta í hafrannsóknum og eftirliti með nýtingu fiskistofna við Ísland. Síðast en ekki síst hefur Brim átt í víðtæku samstarfi við háskóla, stofnanir og fyrirtæki um hagnýtingu gagna. Í mörgum tilvikum er slíkt samstarf unnið í tengslum við meistara- eða doktorsverkefni og styður þannig þekkingarsköpun í víðu samhengi.

Nýsköpun

Tilraunavinnsla á kolmunna

Kolmunni (Micromesistius poutassou) er hvítur fiskur af þorskfiskaætt. Á síðustu tíu árum hefur aflinn í N-Atlantshafi sveiflast frá 600 þús tonnum upp í 1,8 milljónir tonna og veiða íslensk uppsjávarskip um 16% af heildaraflanum. Íslendingar veiddu mikið af kolmunna í Íslenskri lögsögu á árum áður en síðustu ár hefur hann að mestu verið sóttur til Færeyja á þeim tíma sem veiðin er best og kostnaður við veiðarnar sem minnstur.

Nánast allur kolmunni sem veiddur hefur verið af íslenskum skipum hefur verið nýttur til fiskmjölsframleiðslu. Sömu sögu er að segja af flestum norskum og færeyskum skipum. Veiðarnar hafa farið fram fjarri helstu vinnslustöðvum og á þeim tíma sem fiskurinn er óhentugur til manneldisvinnslu. Síðustu ár hafa íslensk skip orðið vör við aukinn kolmunna í íslenskri lögsögu á haustin. Oft á tíðum er þetta stór og fallegur kolmunni sem ætti að henta vel til vinnslu. Það var því ákveðið að gera tilraun með vinnslu á kolmunna til manneldis haustið 2022. Tilraunin gekk vel, en sérstök áhersla var lögð á kælingu aflans. Á komandi misserum er stefnt að frekari tilraunum á þessu sviði og aldrei að vita nema landvinnsla á kolmunna til manneldis eigi framtíð fyrir sér hér á landi.

Nýsköpun

Nýr hugbúnaður nýtist við þjálfun, fræðslu og rannsóknaverkefni

Brim hefur tekið þátt í þróun á hugbúnaði LearnCove sem hefur að markmiði að auðvelda þjálfun og fræðslu meðal starfsfólks. Einn af kostum hugbúnaðarins felst í möguleikum til að vinna með efni á mörgum tungumálum, en Brim hefur, auk þess að bjóða upp á íslenskukennslu fyrir starsfólk, lagt áherslu á að fyrir hendi hjá félaginu sé fræðsluefni sem nýtist starfsfólki sem er af erlendu bergi brotið. Brim stefnir einnig að notkun LearnCove í tengslum við samstarfsverkefni með nemendum í háskólum innanlands sem utan.

Nýsköpun

Prófanir á nýrri tækni með samstarfsaðilum

Brim hefur síðustu mánuði verið með til prófunar búnaðinn Maritech Eye. Búnaðinum er ætlað að meta ástand fiskholds, þannig að stýra megi vinnsluleiðum svo hámarksnýtingu sé náð. Um er að ræða þróunarverkefni með framleiðanda búnaðarins, sem er norska fyrirtækið Maritech, en í búnaðinum er nýtt svokölluð litrófsgreining (spectroscopy) tækni.

Einnig hefur verið til reynslu búnaður frá Baader sem nýtir myndgreiningartækni til stærðarflokkunar á afla. Með slíkum búnaði er stefnt að því að upplýsingar um stærðarflokkun afla geti nýst með nákvæmari hætti en nú er til skipulags á bolfiskvinnslu, en einnig til þekkingaruppbyggingar á lífríki hafsins, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun.

Nýsköpun

Fagstjóri fiskimála ráðinn til Brim

Dr. Kristján Þórarinsson var ráðinn fagstjóri fiskimála hjá Brimi í nóvember.

Kristján er stofnvistfræðingur að mennt og hefur áratugareynslu á sviði sjávarútvegs og á alþjóðavettvangi fiskimála. Kristján kemur að margþættum verkefnum sem félagið vinnur að á hverjum tíma, þar á meðal að meta stöðu hafrannsókna einstakra fiskistofna. Með ráðningu Kristjáns er verið að styrkja þekkingu Brims á sviði haf- og vistfræðirannsókna og undirbyggja þannig stefnu félagsins um sjálfbæra nýtingu auðlinda sjávar, lágmörkun kolefnisspors og aukna verðmætasköpun.

Brim - On to Something

On to Something er sprotafyrirtæki sem stefnir að uppbyggingu á viðskiptavettvangi þar sem afgangs- og hliðarafurðir ganga kaupum og sölum, jafnvel með hráefni sem fáum hefur dottið í hug að nýta og þykja verðlaus í dag. Að verkefninu standa frumkvöðlarnir Sara Jónsdóttir og María Kristín Jónsdóttir og hafa þær átt í samstarfi við Brim um nýtingu á afgangs textílefnum sem leysi innfluttar vélatuskur af hólmi í skipum Brims.

Starfsemi og nýsköpun innan Brims kynnt víða

Starfsemi og nýsköpun innan Brims kynnt víða

Starfsfólk Brims leggur áherslu á að kynna starfsemi félagsins með ýmsum hætti, m.a. því að taka á móti fjölda gesta á starfsstöðvum okkar. Katrín Jakobsdóttir og Sanna Marin, forsætisráðherrar Íslands og Finnlands voru meðal gesta í Norðurgarði á árinu, en Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, tók á móti þeim í nóvember og sagði stuttlega frá félaginu og fólkinu sem þar starfar. Kom þar fram áhersla félagsins á sjálfbæra þróun þar sem saman fer traustur og arðbær rekstur, sjálfbær nýting auðlinda og aðgerðir til að draga úr vistspori og vaxandi áhersla á traust samskipti við samfélagið. Sömu áherslur voru kynntar fyrir Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sem heimsótti Brim á Vopnafirði í tengslum við opinbera heimsókn sína þangað, sem og fyrir hópi bandarískra þingmanna sem sótti Breið þróunarsetur á Akranesi heim.

Fjölmarga aðra gesti bar að garði á starfsstöðvum Brims og má í því samhengi nefna verkfræðinema úr Háskólanum í Reykjavík og úr Háskóla Íslands, MBA nemendur frá Rotterdam School of Management, nemendur Vopnafjarðarskóla sem unnu að verðlaunaverkefni sínu í First Lego League, Iceland Sustainable Fisheries, kaupendur sjávarafurða og starfshópa Auðlindarinnar okkar.

Starfsemi félagsins er kynnt með margvíslegum hætti, auk heimsókna á starfsstöðvar. Ársfjórðungsleg uppgjör kynna niðurstöðu fjárhags- og umhverfisbókhalds, auk þess sem þátttaka í Sjávarútvegsráðstefnunni og öðrum ráðstefnum, sýningum, vinnustofum og skrif á heimasíðu miða að því að kynna félagið með fjölbreyttum hætti og hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsins.